4.3.2008 | 11:50
"Þetta gæti verið mamma mín!!!"
Ég var á bloggrúntinum og að venju las ég mörg athyglisverð blogg. Sum létu mig brosa út í annað, jafnvel hlægja, önnur komu fram tárunum og svo voru það nokkur sem framkölluðu reiði..
Þetta er bara eins og veðrið! Sífelldar sviptingar!
Nei, án gríns, þetta kom mér til að hugsa um hvað við erum í rauninni lík öllsömul. Í öllum mínum bloggvinum finn ég e-ð sem ég kannast við hjá sjálfri mér. Margir bloggvina minna eru bara betri í því að koma því frá sér á "blað". En nú þekki ég ekki bloggvini mína í hinum raunverulega heimi og þá velti ég fyrir mér hversu margra ég hefði gengið upp til og sagt "Halló, viltu vera vinur minn?", eða yfirhöfuð yrt á. Þetta er það frábæra við þessa bloggheima, maður kynnist fólki (upp að vissu marki, allir hafa sína línu sem þeir vilja ekki hleypa fólki yfir) án þess að hafa fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig viðkomandi "er", byggt á klæðaburði, makeupi, fasi, raddblæ...
Þetta er held ég holl áminning. Öll höfum við sömu tilfinningar, öll getum við hlegið, grátið, argað af reiði, dregið djúpt andann til að finna innri ró... Ef nauðgarar litu á tilvonandi fórnarlamb sitt og hugsuðu sér að þetta gæti verið systir þeirra, mamma, frænka, kærasta þá held ég að nauðgunum myndi fækka. Ef ofbeldismenn hugsuðu sér hvernig þeim liði ef e-r héldi þeim í heljargreipum og berði til óbóta myndi ofbeldisverkum líklega fækka e-ð líka. Auðvitað eru þeir glæpamenn til sem ekki hafa neina samúð með neinum, en mögulega yrði þeim viðbjargað ef þeir bara gætu snúið myndinni við og séð sjálfa sig í spegli. Ef þeir bara gætu...
Eins er það með særandi orð og gjörðir. Gullna reglan á svo vel við í þessu lífi, því miður fara bara svo fáir eftir henni: Komið fram við aðra eins og þið viljið að aðrir komi fram við ykkur!
Já, þetta var pæling dagsins.
Verið góð hvert við annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.3.2008 | 17:58
Sunnudagsþunglyndi....
Alveg er þetta sunnudagsþunglyndi óskiljanlegt fyrirbæri.. Hér áður fyrr tengdi maður þetta við misgóðan móral, þynnku og þreytu eftir "skemmtanir" helgarinnar en ekki er þannig ástatt lengur hjá mér að ég sé úti á lífinu allar helgar. Nú fór ég reyndar út með vinkonum mínum á föstudaginn, við höfum ekki farið saman þrjár í áratug eða svo, þannig að ekki þarf ég að hafa mikinn móral yfir því. Ekki var ég heldur á fylleríi, af tveim ástæðum: ég er enn með barn á brjósti og þótt hann sé ekki háður því eingöngu lengur nennti ég ekki að standa í því pumpuveseni sem fylgir áfengisblandaðri mjólk svona daginn eftir.. Og hin ástæðan var sú að ég var bílandi vegna þess að ég nennti ekki heldur að gista í bænum og eiga eftir að keyra hingað austur daginn eftir..
Í gær fór ég svo með pjakkana í skemmtiferð að gefa öndunum brauð (alltaf jafn vinsælt!) og skoða stóra Íslandskortið í Ráðhúsinu (ekki síður vinsælt!) Svo fengum við okkur góðan kvöldmat með ís í eftirrétt og áttum yfirleitt bara góðan og gleðiríkan dag!
Hér sit ég samt núna, með sunnudagsþunglyndi!!
Hef svosem enga ástæðu til, er búin að sinna mínum verkum hérna heima, setja í þvottavél og uppþvottavél og gefa börnunum að borða og spjalla við þá og allt þetta dagsdaglega. Á morgun hefst EKKI vinnuvika hjá mér (enn í fæðingarorlofi) þótt drengirnir fari í skólann og leikskólann (og ég fæ þ.a.l. meiri ró hérna heima og ætti því að hlakka til mánudaga!)
Nei, það er sama hvernig ég reyni að skilja þessa tilfinningu, ég botna bara ekkert í þessu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.2.2008 | 01:00
This is my life..
Við sátum hér fyrir framan imbann til að fylgjast með þessu blessaða úrslitakvöldi, poppuðum und alles!
Synir mínir tveir elstu eru forfallnir Júró-aðdáendur og hafa oftar en ekki reynst halda með ákkúrat réttu lögunum í þessum keppnum (þ.e. þeim lögum sem vinna!) Monsan í miðið hefur t.d. haldið mikið með Hóhóhó-laginu og brast hreinlega í grát þegar það vann ekki... Erfitt að vera ekki allsráðandi sexára gutti! Þó örlítil hughreysting í því að það lenti a.m.k. í öðru sæti... Sá elsti hélt að þessu sinni með "rétta" laginu og var að vonum sáttur við niðurstöðurnar í kvöld...
Sá elsti hefur náttúrulega haft áhuga nokkrum árum lengur en Monsinn, enda nokkrum árum eldri, en sú keppni sem hafði mest áhrifavald á Monsann var þegar Lordi bar sigur úr býtum fyrir Finnlands hönd. Þá vonaði hann svo innilega að þeir ynnu að gleðin sem lýsti úr svip hans þá var ólýsanleg!
Ég er nokkuð sátt við úrslitin sjálf, þetta er gott júrópopp!
Jæja, best að fara bara í bælið, nenni ekki að vera enn einu sinni grútmygluð og þreytt þegar þeir tveir yngri vekja mig í fyrramálið...
Knúsist og verið góð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2008 | 01:51
Gleeeeeeeeeðileeeeeegt áááárrrrrrrrr!!!!!!!!!!!!!!
....já, kannski væri vert að skrifa eins og eina færslu á þessu nýja ári, sem þó er orðið næstum tveggja mánaða.....
Hér á bæ hefur þessi tími runnið saman í eina samfellda veikinda-rok-snjó-óveðurs-og-meiri-veikinda-móðu svo ég er alveg búin að fá nóg!
Var föst heima hjá mér í u.þ.b. þrjár vikur, fyrst með veikt barn, svo innilokuð vegna snjófargs og óveðurs, svo aftur veikt barn(sama barnið aftur), þar næst veikt barn(annað barn í þetta skiptið)...
En nú hlýtur þetta að fara að taka enda. Í dag var ég full vonar, andaði að mér vorilminum sem lá í loftinu, sólin skein, göturnar voru snjólausar og allt var fallegt. Ég þurfti að skreppa í Bónus (var kaffilaus og það gengur bara EKKI!!!) svo ég skellti minnstakút í gallann og út í bíl og við lögðum af stað. Komum inn á Selfoss en þá hreinlega gat ég ekki hugsað mér að troðast í þeirri Bónusverslun þrátt fyrir að það væri bara nýbúið að opna og sjálfsagt lítið af fólki... Þetta var líka ágætis afsökun fyrir að krúsa svoldið á bílnum í þessu blíðskaparveðri... Svo við keyrðum áfram og nutum þess að hlusta á e-r gömul og góð lög í útvarpinu, mikill fílíngur hjá mömmunni og minnstikútur var bara kátur með það! Fórum í Bónus í Hveragerði í staðin. Það var gaman. Ég keypti kaffi, sem var jú tilgangur búðarferðarinnar, og sokka á strákana, og barnamat..
Þegar heim var komið var sá stutti sofnaður og þá fannst mér sniðugt að þrífa bílinn að innan, enda ekki vanþörf á.. Og nú á ég fínan bíl- að innan a.m.k!!
Já, þetta var alveg ágætur dagur. En skjótt skipast veður og allt það. Núna er búið að snjóa svo mikið að ég veit ekki hvort ég komist af bæ á morgun, grrrr...
Vonandi samt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2007 | 17:46
Tilkynningarskylda...
Hjálparkall vegna hryllingsmyndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2007 | 12:55
Hvernig kaffi? Latte, takk...
Sá þetta á bloggi skorrdals ( http://skorrdal.blog.is/blog/skorrdal/ ) og varð auðvitað að taka prófið... Er sjálfprófsfíkill... hehe.. Hef gaman af þessu...
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?
"Latte!
Þú ert skapstór og íhaldsamur einstaklingur sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfirðu þér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli.
Þú samanstendur af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk. "
Bloggar | Breytt 5.11.2007 kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.11.2007 | 11:47
Hneyksli!! Kjaftshögg..
..já kýlum þessa stofnun á kjaftinn!!! Grrr... Ég verð svo reið þegar ég les um svona óþverra. Það versta er að þetta er ekki eina dæmið, þau eru svo mörg að ég gæti setið og pikkað endalaust.
Hvaða helv... úrelti hugsunarháttur er þetta? Skítalykt af þessu.
Stöndum nú upp og MÓTMÆLUM!!!!! Krefjumst bóta á þessu kerfi okkar. Fyrir öryrkja, aldraða, láglaunafólk, skólafólk, einstæða foreldra og barnafjölskyldur almennt! Fyrir alla þá sem halda þessu landi gangarndi og fá bara fret í nasir fyrir það.
Stjórnmálamenn og bankastjórar? Skammist ykkar!
Skrifum nú undir: http://www.petitiononline.com/lidsauki/petition.html
Stórtapaði á að þiggja bætur eftir slys | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2007 | 01:54
Andlit í strætó...
Ég hef alltaf verið heilluð af fólki. Öllu fólki.
Á strætóárum mínum (sem voru ANSI mörg, eina ástæðan fyrir að ég tek ekki strætó í dag er sú að ég bý úti á landi=engar strætóleiðir í boði... ), þegar ég sat grútmygluð og nývöknuð í fimmunni á leið í skólann, þá þótti mér svo vænt um ferðafélaga mína. Fólk sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt. Sumir voru náttúrulega "fastagestir" eins og ég, svo ég sá þau á hverjum morgni, aðrir höfðu ný andlit í andlitasafnið mitt. "Fastagestina" þekkti ég, á minn hátt. Konan sem kom inn hjá sjoppunni á hverjum morgni t.d. var jafnan vel til höfð svo ég ímyndaði mér að hún væri kannski svoldið rík, í góðri vinnu og ætti gáfuð börn sem væru alltaf góð við labradorinn þeirra. Svo á hinum enda skalans var kona sem var alltaf í ljótri grárri ullarkápu sem hafði séð betri tíð. Á höfðinu hafði hún e-s konar heimaprjónaða alpahúfu og hárið á henni var alltaf fitugt. Ég var nokkuð viss um að hún byggi ein með kettina sína í kjallaraíbúð í Litla Skerjó. Mér fannst ekkert endilega að sú síðarnefnda væri verri en hin, fólk er misjafnt og það er gott!
Sem betur fer er ég alin upp við það að allir sem komu inn á okkar heimili sem gestir fengu sömu móttökur, háir sem lágir og af öllum þjóðfélagsstigum. A.m.k. upplifði ég það þannig og það vil ég taka með mér í þessu lífi.
Ef ég sá gamla konu sitja á bekk niðri í bæ og horfa á endurnar (já, þá voru ENDUR á Tjörninni!!) þá hugsaði ég mikið um hvað hún væri búin að upplifa. Var maðurinn hennar enn á lífi? Ef hann var dáinn, sat hún þá þarna og hugsaði um hann? Fóru þau e.t.v. saman niður að tjörn og gáfu öndunum brauð þegar þau voru að draga sig saman? Héldust í hendur og horfðu brosandi og ástfangin á hvort annað? Voru þau hamingjusöm saman seinna í lífinu? Kannski ekki. Kannski var sambandið stormasamt og slæmt. Kannski var hún alls ekki að hugsa um manninn sem hún giftist, heldur manninn sem hún sleppti takinu á
Svo sat ég á kaffihúsum líka, það tilheyrir aldrinum. Þar sá ég kannski par sitja saman við borð og tala saman. Hlæja. Voru þau par eða bara góðir vinir? Hann var eflaust hrifinn af henni, (enda sæt stelpa) en hún leit á hann sem einn af stelpunum. Gat sagt honum allt, spurt hann út í af hverju strákar eru eins og þeir eru, algerlega óvitandi hversu sárt honum fannst að heyra um hennar ástarmál og ævintýri. Eða öfugt. Hvernig hún smároðnaði af og til þegar hann leit beint í augun á henni benti til þess
Svona sat ég semsagt í strætó, á kaffihúsum, í skólanum, í biðröðum, í sundi, hvar sem er og bjó til ævisögur fólks sem ég þekkti ekki neitt. Hver veit, kannski bjó ég til sögu um ÞIG!!??!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2007 | 10:40
Get your motor runnin'
Bifhjólaástríða breiðist út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2007 | 22:54
Þá og nú...
Var að horfa á veðurfréttirnar. Alltaf sama veðrið svosem, þannig séð.. En mér varð allt í einu hugsað til þess þegar að veðurfræðingarnir höfðu sjálfir teiknað sól og ský og aðrar krúsídúllur á veðurkortin. Þá var enginn bláskjár fyrir aftan þá, bara bent með priki: hæð hér, lægð þar, rigning og rok allsstaðar..
Þá var líka bara ein sjónvarpsstöð, ekkert sjónvarp á fimmtudögum og engar útsendingar í júlí.. (Eða var það júní?)
Skömmu seinna kom stöð tvö, samkeppni og allt það. Þá fór nú ruv að neyðast til að hafa útsendingar allan ársins hring, meira að segja á fimmtudögum. Reyndar hefur aldrei verið keypt áskrift að stöð tvö á mínum heimilum, mömmu og pabba fannst það bara vitleysa og ég er sömu skoðunar núna á fullorðinsárum.
En þegar stöð tvö var að byrja sýndi hún oft Granna ótruflaða um eftirmiðdaginn og mér og vinkonu minni fannst það frekar spennandi. Þá fórum við gjarnan heim til mín og bökuðum skúffuköku, skrifuðum nöfnin okkar í deigið í skúffunni og sleiktum fingurna, átum svo volga skúffukökuna, drukkum kalda mjólk og horfðum á Granna.. Andvarp... Those were the days!
Núna er þvílík ofgnótt af stöðvum, það er bara að velja hvaða áskrift þú vilt kaupa þér. Hallærisleg eins og ég er er enn bara ruv (og reyndar skjárinn, jú) í boði hér á heimilinu.
Var þetta nokkuð svo vitlaus hugmynd? Að hafa "sjónvarpsfrí" á fimmtudögum? Maður ætti kannski að taka það til athugunar, en ekki fyrr en þessi þáttur er búinn, eða næsti kannski...
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)