Andlit í strætó...

Ég hef alltaf verið heilluð af fólki. Öllu fólki.  

Á strætóárum mínum (sem voru ANSI mörg, eina ástæðan fyrir að ég tek ekki strætó í dag er sú að ég bý úti á landi=engar strætóleiðir í boði... Devil), þegar ég sat grútmygluð og nývöknuð í fimmunni á leið í skólann, þá þótti mér svo vænt um ferðafélaga mína. Fólk sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt. Sumir voru náttúrulega "fastagestir" eins og ég, svo ég sá þau á hverjum morgni, aðrir höfðu ný andlit í andlitasafnið mitt. "Fastagestina" þekkti ég, á minn hátt. Konan sem kom inn hjá sjoppunni á hverjum morgni t.d. var jafnan vel til höfð svo ég ímyndaði mér að hún væri kannski svoldið rík, í góðri vinnu og ætti gáfuð börn sem væru alltaf góð við labradorinn þeirra. Svo á hinum enda skalans var kona sem var alltaf í ljótri grárri ullarkápu sem hafði séð betri tíð. Á höfðinu hafði hún e-s konar heimaprjónaða alpahúfu og hárið á henni var alltaf fitugt. Ég var nokkuð viss um að hún byggi ein með kettina sína í kjallaraíbúð í Litla Skerjó. Mér fannst ekkert endilega að sú síðarnefnda væri verri en hin, fólk er misjafnt og það er gott! 

Sem betur fer er ég alin upp við það að allir sem komu inn á okkar heimili sem gestir fengu sömu móttökur, háir sem lágir og af öllum þjóðfélagsstigum. A.m.k. upplifði ég það þannig og það vil ég taka með mér í þessu lífi.  

Ef ég sá gamla konu sitja á bekk niðri í bæ og horfa á endurnar (já, þá voru ENDUR á Tjörninni!!) þá hugsaði ég mikið um hvað hún væri búin að upplifa. Var maðurinn hennar enn á lífi? Ef hann var dáinn, sat hún þá þarna og hugsaði um hann? Fóru þau e.t.v. saman niður að tjörn og gáfu öndunum brauð þegar þau voru að draga sig saman? Héldust í hendur og horfðu brosandi og ástfangin á hvort annað? Voru þau hamingjusöm saman seinna í lífinu? Kannski ekki. Kannski var sambandið stormasamt og slæmt. Kannski var hún alls ekki að hugsa um manninn sem hún giftist, heldur manninn sem hún sleppti takinu á… 

Svo sat ég á kaffihúsum líka, það tilheyrir aldrinum. Þar sá ég kannski par sitja saman við borð og tala saman. Hlæja. Voru þau par eða bara góðir vinir? Hann var eflaust hrifinn af henni, (enda sæt stelpa) en hún leit á hann sem ”einn af stelpunum”. Gat sagt honum allt, spurt hann út í af hverju strákar eru eins og þeir eru, algerlega óvitandi hversu sárt honum fannst að heyra um hennar ástarmál og ævintýri. Eða öfugt. Hvernig hún smároðnaði af og til þegar hann leit beint í augun á henni benti til þess…   

Svona sat ég semsagt í strætó, á kaffihúsum, í skólanum, í biðröðum, í sundi, hvar sem er og bjó til ævisögur fólks sem ég þekkti ekki neitt. Hver veit, kannski bjó ég til sögu um ÞIG!!??!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Mér þykir ofsalega gaman að sitja álengdar og fylgjast með fólki. T.d. sitja úti á kaffihúsi um sumar og horfa á fólkið í kringum mig og þá sem ganga fram hjá. Stundum er ég búin að búa til sögu um einhvern áður en ég veit af. Mér heyrist samt að þú sért snillingur í þessari list. Skemmtileg færsla hjá þér. Takk fyrir hana.

Jóna Á. Gísladóttir, 4.11.2007 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband