Færsluflokkur: Dægurmál

Andlit í strætó...

Ég hef alltaf verið heilluð af fólki. Öllu fólki.  

Á strætóárum mínum (sem voru ANSI mörg, eina ástæðan fyrir að ég tek ekki strætó í dag er sú að ég bý úti á landi=engar strætóleiðir í boði... Devil), þegar ég sat grútmygluð og nývöknuð í fimmunni á leið í skólann, þá þótti mér svo vænt um ferðafélaga mína. Fólk sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt. Sumir voru náttúrulega "fastagestir" eins og ég, svo ég sá þau á hverjum morgni, aðrir höfðu ný andlit í andlitasafnið mitt. "Fastagestina" þekkti ég, á minn hátt. Konan sem kom inn hjá sjoppunni á hverjum morgni t.d. var jafnan vel til höfð svo ég ímyndaði mér að hún væri kannski svoldið rík, í góðri vinnu og ætti gáfuð börn sem væru alltaf góð við labradorinn þeirra. Svo á hinum enda skalans var kona sem var alltaf í ljótri grárri ullarkápu sem hafði séð betri tíð. Á höfðinu hafði hún e-s konar heimaprjónaða alpahúfu og hárið á henni var alltaf fitugt. Ég var nokkuð viss um að hún byggi ein með kettina sína í kjallaraíbúð í Litla Skerjó. Mér fannst ekkert endilega að sú síðarnefnda væri verri en hin, fólk er misjafnt og það er gott! 

Sem betur fer er ég alin upp við það að allir sem komu inn á okkar heimili sem gestir fengu sömu móttökur, háir sem lágir og af öllum þjóðfélagsstigum. A.m.k. upplifði ég það þannig og það vil ég taka með mér í þessu lífi.  

Ef ég sá gamla konu sitja á bekk niðri í bæ og horfa á endurnar (já, þá voru ENDUR á Tjörninni!!) þá hugsaði ég mikið um hvað hún væri búin að upplifa. Var maðurinn hennar enn á lífi? Ef hann var dáinn, sat hún þá þarna og hugsaði um hann? Fóru þau e.t.v. saman niður að tjörn og gáfu öndunum brauð þegar þau voru að draga sig saman? Héldust í hendur og horfðu brosandi og ástfangin á hvort annað? Voru þau hamingjusöm saman seinna í lífinu? Kannski ekki. Kannski var sambandið stormasamt og slæmt. Kannski var hún alls ekki að hugsa um manninn sem hún giftist, heldur manninn sem hún sleppti takinu á… 

Svo sat ég á kaffihúsum líka, það tilheyrir aldrinum. Þar sá ég kannski par sitja saman við borð og tala saman. Hlæja. Voru þau par eða bara góðir vinir? Hann var eflaust hrifinn af henni, (enda sæt stelpa) en hún leit á hann sem ”einn af stelpunum”. Gat sagt honum allt, spurt hann út í af hverju strákar eru eins og þeir eru, algerlega óvitandi hversu sárt honum fannst að heyra um hennar ástarmál og ævintýri. Eða öfugt. Hvernig hún smároðnaði af og til þegar hann leit beint í augun á henni benti til þess…   

Svona sat ég semsagt í strætó, á kaffihúsum, í skólanum, í biðröðum, í sundi, hvar sem er og bjó til ævisögur fólks sem ég þekkti ekki neitt. Hver veit, kannski bjó ég til sögu um ÞIG!!??!

 


Þá og nú...

Var að horfa á veðurfréttirnar. Alltaf sama veðrið svosem, þannig séð.. En mér varð allt í einu hugsað til þess þegar að veðurfræðingarnir höfðu sjálfir teiknað sól og ský og aðrar krúsídúllur á veðurkortin. Þá var enginn bláskjár fyrir aftan þá, bara bent með priki: hæð hér, lægð þar, rigning og rok allsstaðar..

Þá var líka bara ein sjónvarpsstöð, ekkert sjónvarp á fimmtudögum og engar útsendingar í júlí.. (Eða var það júní?)

Skömmu seinna kom stöð tvö, samkeppni og allt það. Þá fór nú ruv að neyðast til að hafa útsendingar allan ársins hring, meira að segja á fimmtudögum. Reyndar hefur aldrei verið keypt áskrift að stöð tvö á mínum heimilum, mömmu og pabba fannst það bara vitleysa og ég er sömu skoðunar núna á fullorðinsárum.

En þegar stöð tvö var að byrja sýndi hún oft Granna ótruflaða um eftirmiðdaginn og mér og vinkonu minni fannst það frekar spennandi. Þá fórum við gjarnan heim til mín og bökuðum skúffuköku, skrifuðum nöfnin okkar í deigið í skúffunni og sleiktum fingurna, átum svo volga skúffukökuna, drukkum kalda mjólk og horfðum á Granna.. Andvarp... Those were the days!Joyful

Núna er þvílík ofgnótt af stöðvum, það er bara að velja hvaða áskrift þú vilt kaupa þér. Hallærisleg eins og ég er er enn bara ruv (og reyndar skjárinn, jú) í boði hér á heimilinu.

Var þetta nokkuð svo vitlaus hugmynd? Að hafa "sjónvarpsfrí" á fimmtudögum? Maður ætti kannski að taka það til athugunar, en ekki fyrr en þessi þáttur er búinn, eða næsti kannski...


Óður til hamingjunnar

Eru ekki allir að leita að hamingjunni?

Þegar ég var yngri áttaði ég mig ekki á því að "hamingjan" er ekki ástand sem maður öðlast og heldur um ókomna framtíð. Ég hélt að ef maður fyndi þann rétta hlyti maður að verða hamingjusamur/söm. Eða að þegar maður eignaðist barn. Eða þegar maður...

Ég var að hugsa um hamingjuna í gærkvöldi og rifja upp ýmsar hamingjustundir í lífinu. Ég er nefnilega fyrir löngu búin að komast að því að öll litlu (og sum stór líka) augnablikin þegar allt er e-n vegin fullkomið eru "hamingjan".

Þegar ég fékk drengina í fangið þegar þeir voru nýfæddir. Að sjá þessar verur sem höfðu stækkað og vaxið innan í mér, sem höfðu spriklað og sparkað í bumbunni. Að heilsa þeim í allra fyrsta sinn, augliti til auglits. Yndislegt.

Þegar drengirnir eru að leika sér með bílana sína og tala fyrir alla litlu ímynduðu karlana sem eru að keyra þá. Lágmæltir og algerlega í þessum leikheimi sem er svo tær og hreinn og beinn. Yndislegt.

Þegar drengirnir eru sofnaðir, liggja svo slakir, mjúkir og heitir og búnir að sparka af sér sænginni eins og venjulega. Sakleysið geislar af þeim og andardrátturinn er svo reglulegur. Yndislegt.

Þegar ég ligg í fanginu á manninum uppi í sófa og horfi á varirnar á honum hreyfast þegar hann talar. Heyri hjartað í honum slá og fnn ylinn af líkama hans. Yndislegt.

Þegar það er kyrrt sumarsíðdegi og ég stend við þvottasnúruna með ilmandi, nýþveginn þvottinn og hengi hann upp. Samblönduð lykt af sumri, nýslegnu grasi og hreinum þvottinum. Yndislegt.

Þegar það er frostköld vetrarnótt, stjörnubjart og norðurljós. Tunglið sendir kalda geisla yfir landið og það er svo hljótt, svo hljótt. Yndislegt.

Þegar það kemur frábært lag í útvarpinu ákkúrat þegar ég þarf á því að halda til að hrista við mér. Get dansað eins og vitleysingur og gólað með textanum því það er enginn heima. Yndislegt.

Þessi atriði og fleiri af þessum toga gera það að verkum að ég get haldið áfram í lífsbaráttunni, dag eftir dag, því þau eru svo fyllilega þess virði að bíða eftir þeim. Og ef maður er óþolinmóður og nennir ekki að bíða þá getur maður skapað sína litlu hamingjustund með því að kveikja á kerti, horfa í logann og hugsa um allar þessar hamingjustundir í lífinu, um alla góðu manneskjurnar sem hafa orðið á vegi manns og þær sem eru enn með manni, um allar manneskjurnar sem maður á eftir að hitta og allt sem maður á eftir að upplifa. Það er GOTT að vera til, þrátt fyrir allt harkið í hinum gráa hversdagsleika.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband