5.3.2008 | 22:57
Dekur, dekur, dekur...mmmh...
Ég fór í andlitsbað í dag. Kannski finnst ykkur það ekki merkilegt, en mér finnst það! Á mínum þrjátíu árum hef ég ALDREI farið og látið dekra við mig neins staðar, aldrei látið lita og plokka augabrúnir/-hár, aldrei látið þvo mér um hárið og fá hársvörðsnudd í klippingu, aldrei farið í nudd, aldrei, aldrei, aldrei... En svo fékk ég semsagt gjafakort í þetta dekur þegar ég varð þrítug og það dagaði nánast uppi í veskinu mínu, rann eiginlega út í janúar, en þær voru ekkert að æsa sig yfir því þegar ég loksins dru**aðist til að hringja og panta tíma.
Þetta var æði! Þ.e. um leið og ég loksins náði að slaka á þarna á bekknum... Til að byrja með lá ég beinstíf og beið þess að stúlkan myndi lita augabrúnirnar kolsvartar og plokka þær svo niður í örmjó strik.. Þetta var minn stærsti kvíði svo ég bað hana ofurpent að hafa þær ekki of dökkar. "Ekkert mál" sagði hún svo undurblítt og rólega að mér hálfbrá, veit ekki hverju ég bjóst við, að hún væri e-r súpergella sem meikar ekki að láta svona "kellingar" (afsakið, ég er nýlega komin með aldurskomplexa, en það hlýtur að líða hjá...) skipa sér fyrir eða e-ð?? Nei, hún var svo róleg og þægileg í framkomu að mér fór fljótlega að líða aðeins betur.
Svo var það kvíðahnútur nr. tvö: ég var alveg viss um að þetta efni sem maður notar til að lita augnhárin færi inn í augun á mér. Ég hef alltaf gert þetta bara sjálf, aldrei treyst mínum bestu vinkonum einu sinni til að lita þau... En auðvitað fór þetta ekki svo illa. Stúlkan hefur nú gert þetta nokkrum sinnum og kann greinilega til verka því ég fann varla fyrir þessu..
Þriðji kvíðahnúturinn var eiginlega ekki neinn kvíðahnútur beinlínis, meira svona feimni við það að liggja eins og klessa og láta e-ja ókunna manneskju dekra við mann.. Það situr svo í manni að maður eigi að hjálpa til. Svona "Á ég ekki að velgja handklæðin, þá getur þú blandað þetta andlitskrem á meðan!"-dæmi. Þess vegna ætti ég erfitt með að ráða til mín manneskju að þrífa hjá mér, ég þyrfti þá að vera búin að taka til daginn áður svo það væri nú ekki allt í skít og drasli þegar hún kæmi!
Aftur að dekrinu. Þegar hún var búin að lita og plokka og strjúka e-um kremum í andlitið á mér fór hún út stundarkorn til að leyfa mér að "bara liggja og slaka á". Vá, hvað það var undarlegt! En jú, þarna lá ég hreyfingalaus eins og spýta með allskonar heilabrot og hugsanir á fullu í höfðinu á mér, svona úr því líkaminn aðhafðist ekkert þurfti heilinn greinilega að bæta upp fyrir það.. Svo kom hún inn aftur og nuddaði andlitið með e-um bursta (Exfoliating býst ég við?!) og það var ósköp notalegt. Þegar hér var komið sögu var ég loksins aðeins farin að slaka á. Punkturinn yfir i-ið var svo nuddið! Mmm, að liggja slakur og láta nudda herðar og uppúr er held ég toppurinn á tilverunni! Þarna sló heilinn loksins út og varð jafn mjúkur og smjör í sólskini... Eftir allt nuddið leyfði hún mér aftur að "bara liggja og slaka á". Og í þetta skiptið gerði ég það virkilega, munaði minnstu að ég sofnaði! Svei mér þá, ég held reyndar að ég hafi dottað smástund...
Þegar þessu var öllu lokið var ég svo með krem í toppinum og hárið allt í flækju eftir hársvörðsnuddið en mér stóð slétt á sama um það, muna bara næst að taka með sér bursta! Afslöppuð var ég a.m.k! Slök og fín allt þar til ég sótti mín yndislegu afkvæmi sem voru í pössun hjá ömmu og afa... Fimm mínútum eftir endurfundi okkar fór einn í fýlu, einn að grenja, einn reyndar kyssti mig og knúsaði, (auðvitað rétt á meðan ég var að díla við hina tvo svo ég náði varla að njóta þess..) Sá yngsti var á meðan sofandi úti í bíl því hann hafði verið með mér í bænum og í pössun hjá systur minni og gert henni lífið aðeins flóknara fyrsta klukkutímann eftir að ég "yfirgaf" hann hjá henni. En hann var sæll og glaður þegar ég kom aftur!
Já, ég held ég hafi alveg átt það skilið að fá smá dekur, smá breik frá daglega amstrinu. Mér finnst reyndar að þetta ætti að vera skylda fyrir alla svona einu sinni á ári a.m.k...
Svo eru strákarnir nú ekki alltaf svona "skemmtilegir" eins og ég lýsti þeim hér að ofan. Þeir eru oftast bara góðir. T.d. eru þeir allir yndislegir í þessum skrifuðu orðum, steinsofandi í bólunum sínum!
Athugasemdir
Ég ætla nú bara að segja: TIL HAMINGJU!
Gunnar Helgi Eysteinsson, 5.3.2008 kl. 23:03
Takk Gunni... Þetta var algjört æði og ég mæli með því að þú hafir þetta í huga ef þig vantar hugmynd að gjöf handa Evu e-n tíma!!
Sigríður Hafsteinsdóttir, 5.3.2008 kl. 23:06
Góð hugmynd...
Gunnar Helgi Eysteinsson, 5.3.2008 kl. 23:36
... Vel skrifuð og flott færsla.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 5.3.2008 kl. 23:37
Takk fyrir það..
Sigríður Hafsteinsdóttir, 6.3.2008 kl. 00:22
Um dekur er svo æðislegt
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 20:33
Já, veistu, ég skil þig svo vel.
Mamma mín er nefnilega snyrtisérfræðíngur & ég fæ alveg í litlu tánöglina þegar ég leyfi henni að dedúa svona við mig líka..
Steingrímur Helgason, 8.3.2008 kl. 00:29
Ólafur fannberg, 23.3.2008 kl. 01:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.