Óður til hamingjunnar

Eru ekki allir að leita að hamingjunni?

Þegar ég var yngri áttaði ég mig ekki á því að "hamingjan" er ekki ástand sem maður öðlast og heldur um ókomna framtíð. Ég hélt að ef maður fyndi þann rétta hlyti maður að verða hamingjusamur/söm. Eða að þegar maður eignaðist barn. Eða þegar maður...

Ég var að hugsa um hamingjuna í gærkvöldi og rifja upp ýmsar hamingjustundir í lífinu. Ég er nefnilega fyrir löngu búin að komast að því að öll litlu (og sum stór líka) augnablikin þegar allt er e-n vegin fullkomið eru "hamingjan".

Þegar ég fékk drengina í fangið þegar þeir voru nýfæddir. Að sjá þessar verur sem höfðu stækkað og vaxið innan í mér, sem höfðu spriklað og sparkað í bumbunni. Að heilsa þeim í allra fyrsta sinn, augliti til auglits. Yndislegt.

Þegar drengirnir eru að leika sér með bílana sína og tala fyrir alla litlu ímynduðu karlana sem eru að keyra þá. Lágmæltir og algerlega í þessum leikheimi sem er svo tær og hreinn og beinn. Yndislegt.

Þegar drengirnir eru sofnaðir, liggja svo slakir, mjúkir og heitir og búnir að sparka af sér sænginni eins og venjulega. Sakleysið geislar af þeim og andardrátturinn er svo reglulegur. Yndislegt.

Þegar ég ligg í fanginu á manninum uppi í sófa og horfi á varirnar á honum hreyfast þegar hann talar. Heyri hjartað í honum slá og fnn ylinn af líkama hans. Yndislegt.

Þegar það er kyrrt sumarsíðdegi og ég stend við þvottasnúruna með ilmandi, nýþveginn þvottinn og hengi hann upp. Samblönduð lykt af sumri, nýslegnu grasi og hreinum þvottinum. Yndislegt.

Þegar það er frostköld vetrarnótt, stjörnubjart og norðurljós. Tunglið sendir kalda geisla yfir landið og það er svo hljótt, svo hljótt. Yndislegt.

Þegar það kemur frábært lag í útvarpinu ákkúrat þegar ég þarf á því að halda til að hrista við mér. Get dansað eins og vitleysingur og gólað með textanum því það er enginn heima. Yndislegt.

Þessi atriði og fleiri af þessum toga gera það að verkum að ég get haldið áfram í lífsbaráttunni, dag eftir dag, því þau eru svo fyllilega þess virði að bíða eftir þeim. Og ef maður er óþolinmóður og nennir ekki að bíða þá getur maður skapað sína litlu hamingjustund með því að kveikja á kerti, horfa í logann og hugsa um allar þessar hamingjustundir í lífinu, um alla góðu manneskjurnar sem hafa orðið á vegi manns og þær sem eru enn með manni, um allar manneskjurnar sem maður á eftir að hitta og allt sem maður á eftir að upplifa. Það er GOTT að vera til, þrátt fyrir allt harkið í hinum gráa hversdagsleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Tileignað þér
Smelltu HÉR! 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 25.9.2007 kl. 12:09

2 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

Tack så mycket!

Sigríður Hafsteinsdóttir, 25.9.2007 kl. 19:28

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Fallegt, áfram svona

Kristjana Bjarnadóttir, 25.9.2007 kl. 21:27

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Yndisleg færsla og eiginlega eins og töluð úr mínum munni. Það er svolítið síðan að ég uppgötvaði nákvæmlega þetta; hamingjan er andartök. fullkomin andartök. Og þó að ég hafi gert þessa miklu uppgötvun fyrir einhverjum árum, þá fell ég alltaf í þá gryfju að gleyma því. Þú minntir mig á það núna og ég þakka þér fyrir það.

Takk líka fyrir að koma út úr skápnum mín megin

Jóna Á. Gísladóttir, 1.10.2007 kl. 00:07

5 Smámynd: Halla Rut

Þitt leiðarljós er greinilega lífshamingjan.  Þannig fólk finnur ávallt hamingjuna þrátt fyrir öll áföll og lífsins þrautargöngu. 

Þér á eftir að vegna vel því þú ert með rétta hugarfarið. 

Halla Rut , 1.10.2007 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband